[ Valmynd ]

datt í vinnunni

11. október 2022

í dag. Byrjaði morguninn á því að tölvan mín krassaði og neitaði að ræsa sig. Viftan hafði gefið sig og lítið við því að gera. Til stóð hvort eð var að endurnýja hana svo ekkert verður gert með hana. En það er alveg ófært að vera tölvulaus í vinnu svo ég reyndi að koma mér í gang með skrapatólum sem til eru en lítið gekk. Til að róa taugarnar ákvað ég að ganga um húsið, hefði betur sleppt því. Rann á blautu gólfi og meiddi mig á hægri mjöðm. Skakklappaðist um í vinnunni fram eftir degi, fékk nýja tölvu um hádegi og gat unnið töluvert.  En er enn að drepast í mjöðminni en vona það besta. Nenni ekki til læknis…

Ummæli (215) - Hitt og þetta

útundan mér

8. október 2022

sá ég gleiðfætta, feita gamla  konu sitja á bekk. Hún var í marglitu pilsi með úlpuna fráhneppta svo sást í bláa ullarpeysu. Ég  tók líka eftir að hún var með pjönkur við hlið sér á bekknum og með ljósbleika húfu á hausnum. Ég  samsamaði mig þessari konu í augnablik því  hún minnti mig á mig og mér fannst ég vita hvernig henni leið í skrokknum. Það var góð tilfinning.

Ummæli (5187) - Óflokkað

bið á flugvelli

7. október 2022

er alltaf eins. Allskonar fólk, allskonar töskur, allskonar hljóð og alls konar lykt. Lítið um sæti en mikið um óþarft góss.

Ummæli (651) - Óflokkað

fegurð morgunsins

6. október 2022

í sólríku logninu er upphefjandi. Birtan frá sólinni lýsir upp marglitan trjágróður. Birta endurkastast af blautu malbiki og blindar mann í smástund. Fuglar vappa í moldinni og tína rauð ber af jörðinni.

Ummæli (123) - Hitt og þetta, EK

það eru öðruvisi

5. október 2022

morgnar þegar maður vaknar í myrkri. Meiri svefndrungi og hægð sem eykst  svo enn þegar veturinn gengur  í garð. Fékk mér klukku í fyrra sem líkir eftir sólarupprás frá 5:50 svo ég vakna alltaf í “björtu” þegar hún hringir 06:20. Held þetta geri gagn en kannski er það bara blekking. Skiptir það máli ef mér finnst þetta gera gagn? Nei líklega ekki, áhrifin á líðanina eru góð hvort sem þau eru  tilfinning eða raunprófuð staðreynd.

Ummæli (4780) - Hitt og þetta

haust tilfinning

4. október 2022

leiðir til blogglöngunar. Vil setja mér það markmið að skrfa smá á hverjum degi. Sá hvatningu á twitter um að sem flestir ættu að skrifa blogg sem enginn les. Það hef ég gert síðan 2004. Með löngum hléum reyndar. Þegar streitan yfirtekur þá er gott að róa hugann með því að skrá niður hvað drífur á daga manns. Oftast er það fátt og ómerkilegt en stundum einstakt eða fátítt, eins og það að hárblásari sogi hárið á manni inn í sig, brenni það og flæki svo klippa þurfi bút af hárinu burt.

Ummæli (0) - Hitt og þetta

fann fyrir

9. október 2021

ellinni þega ég stóð í fjörunni í Nauthólsvík í stórri baðkápu komin úr sundbolnum og ætlaði að klæða mig í buxur undi kápunni. Ég fann ekki út úr því hvernig ég gæti lyft öðrum fæti án þess að geta lyft höndunum til að halda jafnvægi. Skrýtið að finnast maður ekki almennilega hafa stjórn á eigin skrokki. Fór þá bara heim, nakin undir kápunni og kom meira að segja við í bakaríi.

Ummæli (2946) - Óflokkað

haustið verður

7. október 2021

fljótlega hálfnað. Tíminn hefur hert á sér undanfarið. Ekki skrýtið, maður er farinn að rúlla niður brekkuna  stöðugt hraðar og hraðar.

Ummæli (3) - Óflokkað

við Kátur gengum

10. mars 2021

út í rokið. Ég klæddi mig í rauða  24 ára gamla norska fjallaúlpu yfir primaloft úlpuna mína. Sú rauða jafnast á við vel einangrað  hús og hleypir ekki vindi í gegnum sig. Þegar  mér varð litið niðureftir sjálfri mér og sá snjóinn á gangstéttinni,  skóna mína, gallabuxurnar og rauðu úlpuna fannst mér ég bæði  hávaxin, hraust og sterk. Þegar ég  leit í spegil heimkomin varð ég aftur lágvaxin, feit 63 ára kona.  Tilfinningin var góð meðan hún varði.

Ummæli (0) - Óflokkað

ég er farin

3. febrúar 2021

að æfa kuldaþol mitt. Gekk tvisvar syngjandi  í sjóinn í gær í lopapeysu með ullarhúfu á hausnum. Sjórinn var -1,8 gráða. Ég hef ekki farið í svo kaldan sjó áður. Magnað hvað maður fann samt lítið fyrir kulda, en lærin urðu æpandi bleik. Í næstu viku tek ég vonandi sundtök.

Ummæli (0) - Óflokkað