[ Valmynd ]

ÓÐUR TIL SKÖPUNARKRAFTSINS

Birt 30. júlí 2004

“Til að vera maður sjálfur er ekki nóg að reyna að vera það sem maður heldur að maður eigi að vera.”Þó þessi setning líti einna helst út fyrir að úr nýútkominni sjálfshjálparbók er hún skrifuð af Brenda Ueland árið 1938 og birtist í bók sem heitir If you want to write. Ég veit ekki annað um Ueland en það sem stendur á saurblaði bókarinnar, þar kemur fram að hún er frá Bandaríkjunum, fæddist árið 1891 og lést árið 1985. Og að hún var í klíku með Eugene O´Neill og fleirum og fékk alþjóðleg sundverðlaun rúmlega 80 ára.

Brenda Ueland lifði eftir tveimur reglum; önnur snerist um að segja alltaf sannleikann og hin um að gera aldrei neitt sem hún vildi ekki gera.

Ég var svo heppin að maðurinn minn hlustaði á Steinunni Birnu Ragnarsdóttur fjalla um bók hennar If you want to write. Þar sem hann mundi titilinn og kreditkortið var tilbúið til notkunar kom bókin í mínar hendur stuttu síðar.

Þó bókin heiti If you want to write þá er hægt að taka write í burtu og setja hvaða aðra sögn inn í staðinn.

Bókin er fyrst og fremst óður til sköpunarkraftsins sem býr í öllum og við gleymum svo oft að virkja. Við missum sjónar á honum eða reynum af fremsta megni að bæla hann niður. Við þykjumst jafnvel ekki búa yfir neinum, fæst okkar þora að takast á við þennan mikla kraft og beislum við hann því af öllum mætti til að gera okkur örugglega ekki að fíflum.

Fjölskyldur eru að mati Ueland ein af þeim stofnunum sem drepa mjög oft niður sköpunarkraft einstaklinga, foreldrar dæma börn sín oft hart og gera til þeirra kröfur um eitthvað sem þeir halda að sé viðeigandi en börnunum er ekki eiginlegt. Eldri systkini með háðslegar, niðrandi athugsemdir eiga stóran þátt í að kæfa sköpunarkraft yngri systkina sinna. Skólakerfið er líka duglegt að sjúga úr börnum sköpunarkraftinn með of mikilli afskiptasemi hinna fullorðnu og mötun á þurrum staðreyndum.

Við sjálf eigum einnig sjálf mjög auðvelt með að tala okkur ofan af að gera hluti sem brjóta í bága við hefðir eða ógna öryggi okkar að einhverju leyti. Við erum hrædd við að sleppa fram af okkur beislinu reynum frekar að þóknast ríkjandi viðhorfum og fara hefðbundnar leiðir enda er það auðveldast og krefst einskis af okkur. Okkur er kennt frá unga aldri að mikilvægt sé að falla öðrum í geð og við eigum að leggja okkur fram um að gera öðrum til hæfis. En ef fólk notar alla sína orku í að þjóna öðrum og gera til hæfis á það ekki eftir neinn neista til tendra sprengikraftinn sem nærir sköpunarmátt þess. Fremur en að þjóna öðrum á hefðbundinn hátt eigum við að husta á hið ljóðræna og guðdómlega hvert í öðru því, með þeim hætti hjálpum við fólki að blómstra.

Til að virkja sköpunarkraftinn þarf að varast að reisa stíflur, mikilvægast er að leyfa honum að geysa fram óbeisluðum. Það að þora að vera maður sjálfur og láta ekki hugsanir um hvað aðrir halda um mann, trufla sig er ein forsenda þess að geta verið skapandi. Að þekkja sjálfan sig skiptir því máli og til að kynnast sér þarf maður að hafa tíma, einn með sjálfum sér og leyfa sér að vera latur og hamingjusamur án þess að hafa samviskubit yfir því. Þegar við höfum kynnst okkar sanna innri manni getum við sýnt af okkur sér VISKU og verið einlæg og trúverðug um leið.

Það skiptir mjög miklu máli að spyrja gagnrýninna spurninga og fara ekki bara hefðbundna leið og halda að þannig finni maður “réttu” leiðina. Við verðum að ögra okkur og brjótast undan oki viðtekinna skoðana, ekki líta á það sem sjálfgefið rétt sem meirihlutinn telur að sé rétt eða viðeigandi. Við þurfum að varast að einblína á hvernig hlutir eiga að vera og sleppa fram af okkur beislinu og þora lifa okkur inn í hluti, gleyma okkur og vera ekki stöðugt of meðvituð um hvað öðrum finnst. Við eigum að lifa að fullu í núinu og njóta, í stað þess að vera stöðugt að búa í haginn fyrir framtíðina eða orna okkur við minningar úr fortíðinni.

“The foolishness of all this living in the future! Like working very hard at something dull all your live so you can retire on plenty of money at eighty.”

Með þessar hugmyndir Ueland í farteskinu ætla ég að njóta sumarsins löt og hamingjusöm leitandi að hinu guðdómlega og ljóðræna í bólugröfnu unglingunum mínum.

Birt á Kistunni 26. 4. 2003

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.