[ Valmynd ]

DRANGEY

Birt 30. júlí 2004

Ég dáist að sjálfri mér fyrir að takast að skilja lofthræðsluna alveg eftir heima þegar ég fór í Drangey þann 26.
Ég ákvað að fara og sitja bara í fjörunni ef ég treysti mér ekki upp.
En ég flaug bara upp eins og ekkert væri og naut meira að segja dvalarinar uppi þrátt fyrir
lóðrétta kletta beint í sjó fram á allar hliðar.
Líklega hefur það spilað stóra rullu að ég var ekki með syni mína með mér.
Mér er líklega meira sama um það ef aðrir en mitt heimilisfólk hrapa fyrir björg. Flestir í ferðinni voru mér nákomnir en ég hafði engar áhyggjur af örlögum þeirra. Á niðurleiðinni velti ég stöðugt fyrir mér því trausti sem ég bar til þeirra sem komu fyrir stigum og snærum í einstiginu. En ég lamaðist hvergi af hræðslu eins og í Esjuhlíðum forðum daga.
Ég er mjög stolt af mér fyrir að hafa komist þetta og geta notið dagskrárinnar þó hún væri í hallandi brekku niður að sjó.
Mesta afrekið vann þó ísraelsk kona sem S þurfti að aðstoða upp og niður.
Hún var með veika fætur eftir bílslys og hefði örugglega ekki lagt í þessa ferð ef hún hefði vitað hvað beið hennar á eynni.
Þegar kom að heimferð hafði hvesst svo mikið að litlu mátti muna að báturinn gæti ekki lagst að bryggju og við þurftum að fara mjög hratt um borð. Mér var hent um borð og þar lá ég á gólfi bátsins og var skipað að vera fljót að standa upp svo ekki yrði troðið á mér af næsta farþega.
Í svefnrofanum um kvöldið helltist lofthræðslan svo yfir mig og fólk var að hrapa fram af klettum vinstri hægri og rúmið vaggaði jafn mikið og báturinn sem skoppaði á öldunum eins og korktappi.

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.