[ Valmynd ]

Merkilegt að sitja í verkfalli

Birt 26. október 2004

og hlusta á kaffibarþjón lýsa fjálglega keppni sem hún er að skipuleggja. Hún er með neista í röddinni og maður trúir því að henni finnist kaffigerð mjög mikilvægur þáttur lífsins og jafnvel einhverskonar list.

Henni finnst stórkostlegt að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þeim miklu framförum í kaffimenningu sem orðið hafa á Íslandi og segir fólk hvaðanæva úr heiminum horfa til Íslands til að læra af okkur um kaffimenningu. Þetta er manneskja sem er verulega stolt af sínu starfi og hefur gleði af að segja frá því. Hún heldur því fram að Íslendinar séu að verða gourmet kaffiþjóð sem þegar hún segir það virðist mjög mikilvægt.

Ég þykist sinna einni af grundvallarþjónustu samfélagsins en er ekki viss um að neinn sem sinnir sama starfi og ég gæti lýst svona fjálglega og af eldmóði hvernig hann hafi fengið að taka þátt í þeim stórkostulegu framförum sem íslenski grunnskólinn hefur tekið. Eða sagt frá því að horft sé til okkar varðandi framfarir í skólum. Samt veit ég mörgu hefur verið breytt til hins betra.

Mér finnst það áhyggjuefni að kennarar geti ekki lýst starfi sínu af sama eldmóði og kaffibarþjónar. Það hlýtur að vera enn mikilvægara að neistinn logi innra með kennurum og þeir telji sig hafa mikið fram að færa, annars er menntun þjóðarinnar í hættu. Kennari sem ekki upplifir virðingu fyrir starfi sínu á erfiðara með að viðhalda neistanum. Þó virðing felist ekki einungis í peningum þá eru það þeir sem mest virðing er borin fyrir nú til dags.

En kannski er öllum sama svo fremi sem þeir geta keypt sér gott kaffi til að taka með sér …

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.