[ Valmynd ]

það er bráðum ár síðan amma dó

Birt 5. desember 2004

Á húsinu hennar ömmu er hvítmálað bárujárnið byrjað að ryðga undir gluggunum. Hliðið inn í garðinn er horfið og nýleg girðing fyrir framan húsið stingur í stúf við lúinn garðinn. Steintröppurnar eru farnar að molna. Ég hringi margmálaðari dyrabjöllunni. Eftir smá stund heyri ég í göngugrindinni og veit að amma er á leiðinni til að opna dyrnar fyrir mig. Á meðan ég bíð horfi ég á blómin sem fylla gluggakisturnar og hugsa til lísanna og pelargoníanna sem voru í gluggunum hennar á Stekkjanesinu. Ég heyri að tekið er í hurðarhúninn. Dyrnar opnast hægt og amma bakkar til að opna dyrnar almennilega svo ég komist inn. Úr svefnherberginu berast hljóð frá páfagaukunum. Það er málningarlykt í loftinu, í stofunni er fullt af kössum. Ég finn að gólfið dúar ekki lengur og í stað rósótta teppisins er komið skínandi parkett. Amma sest í rauða stólinn sinn og ég hefst handa við að raða hlutunum hennar aftur á sinn stað. Hver hlutur á sér sögu sem amma kann.
Í lok dagsins eru veggir stofunnar þaktir myndum af fjölskyldunni og hillurnar fullar af hlutum sem amma hefur eignast og glaðst yfir á sinni löngu ævi.
Ég mun sakna þess að sjá ekki framar góðlegt andlit hennar lifna við í brosi þegar hún heilsar barnabarnabörnum sínum. Ég mun sakna þess að rifja ekki framar upp með henni þegar við vorum í Edinborg og fengum hláturskast í strætó af því hún datt kylliflöt á gólfið. Ég mun sakna þess að hjálpa henni ekki framar í kápuna og hlæja að klaufaskapnum í mér og aumu handleggjunum hennar.
Ég er þakklát fyrir að hafa haft ömmu svona lengi hjá mér og vona að það séu ekki bara hnén og nefið sem ég hef frá henni heldur öðlist ég líka æðruleysið og hógværðina sem mér finnst alltaf hafa einkennt hana.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.