[ Valmynd ]

að ganga hús úr húsi

Birt 28. febrúar 2005

og stinga blaði sem maður hefur unnið sjálfur í hverja lúgu er sérstakt. Ég hefði ekki getað ímyndað mér að bréfalúgur geti verið svona mismunandi. Sumar opnast inn og aðrar út. Stundum er erfitt að opna þær en aðrar fjúka nánast upp um leið og maður nálgast þær. Þær þungu og stífu eru varhugaverðar því maður getur klemmst illa á þeim. Á nokkrum stöðum þurfti ég að berjast við gardínur sem vörnuðu því að blaðið dytti inn. Á einum stað stökk upp að mér brjálaður hundur sem krafsaði af öllu afli í mynstrað glerið á hurðinni.
Einhver ónotatilfinning sækir alltaf að mér þegar ég nálgast húsin. Gamlar minningar um fólk sem réðst að mér með óbótaskömmum vegna kommúnistaáróður sem ég bar út í gamla daga gjósa upp.
Svo er ég svo hlýðin að mér finnst erfitt að setja póst í lúgur sem stendur á “engan ruslpóst takk!” Auðvitað er ég ekki að bera út ruslpóst en það hvarflar að mér að móttakandanum gæti hugsanlega fundist það.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.