[ Valmynd ]

ef ég gæti

Birt 24. apríl 2005

hlaupið upp, rennt mér niður og svifið á milli bambustrjáa væri gaman að sýna öðrum það sem maður kann. Þar sem það eru engir bambusskógar á Íslandi þá hentar þetta áhugamál mér ekki.
Ég gríp strax til þess ráðs að benda á aðstæður utan við mig sem stoppa mig af. En get ég ekki haft áhrif á þær? Ég gæti byrjað á að planta trjám? Eða farið styttri leið og sett niður staura sem væru sambærilegir bambusskógi? Reynt þannig að koma upp aðstöðunni með mikilli fyrirhöfn og ærnum tilkostnaði og þegar þetta er tilbúið get ég farið að æfa mig ef ég man þá enn af hverju ég er að bauka þetta.
Allt eins líklegt væri að eitthvað annað hafi gripið huga minn í miðju kafi og ég gleymi sjálfri mér aftur og byrja á því sem þarf til að framkvæma það.
Áhersla á leikmynd og búninga á við í bíó og leikhúsi og stundum er meira segja í lagi þar að þetta tvennt skyggji á söguna.
Í verunni verður sagan að vera í forgrunni. Að lifa í stað þess að plana. Byrja á sjálfum sér í stað þess að eyða orku sinni í að leggja á ráðin um hvað á að gera eftir að leikmyndin er orðin rétt.
Það er ekki skortur á bambusskógi sem kemur í veg fyrir að ég get sveiflað mér í honum heldur hef ég ekki líkamlega burði til þess. Ég gæti reynt að æfa mig til að ná leikninni. En ég þekki mín mörk og vil setja mér raunhæf markmið sem einhver möguleiki er að ná.
Ég hef ákveðið að gera líf mitt ekki að röð ósigra. Reyni því að kynnast sjálfri mér og finna mér efni að glíma við sem ég hef einhverja möguleika á að ráða við. Hef þó alltaf í huga að það er nauðsynlegt að ögra sjálfum sér.

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.