[ Valmynd ]

mamma og pabbi

Birt 29. maí 2005

eru komin heim frá Krít eftir þriggja vikna dvöl.

Það dreif ýmislegt á daga þeirra m.a. hljóp pabbi ofan í gíg á eftir sólhatti sem hann keypti sér á 3 evrur. Hatturinn fauk af honum. Pabbi komst upp úr gígnum við illan leik, skríðandi á fjórum fótum í mikilli lausamöl. Bretar á gígbarminum spurðu hann hvort hann væri crazy en hann taldi ekki svo vera, hann hefði bara verið að sækja hattinn sinn.

Munurinn á mömmu og pabba kom vel í ljós þegar þau mæltu sér mót á stað sem pabbi benti mömmu á á korti. Mamma lagði á minnið að á kortinu var merkt “tourist information”.

Þangað gekk mamma þegar tíminn sem þau ætluðu að hittast aftur var kominn. Túristainformasjónin var ekki lengur á sama stað og mamma spurði til vegar og var vísað á nýju túristainformasjónina sem var nokkrum götum fjær. Þar beið hún lengi en ekki birtist pabbi. Á endanum fékk hún sér sæti í strætóskýli í grenndinni við hliðina á stórum og miklum ortodox presti í fullum skrúða og beið þar eftir strætó. Pabbi leitaði að mömmu á staðnum sem hann benti á á kortinu og spurðist fyrir en hann fann hana ekki.

Þegar mamma hafði beðið nokkra stund við hlið prestsins sér hún allt í einu andlit sem hún kannast við gægjast fyrir ístruna á prestinum. Pabbi hafði tekið sömu ákvörðun og hún og sest í strætóskýli sem hann gekk fram á til að taka strætó heim á hótel. Hvorugt þeirra vissi af hinu þegar þau settust niður.

Gaman væri að vita hvað presturinn í strætóskýlinu hefur hugsað þegar tvær, að því er virtust í fyrstu, bláókunnungar manneskjur taka tal saman á hrognamáli. Mamma hlýtur að hafa hlegið hátt og mikið eins og hennar er vandi. Nema ef hún hafi frekar skammað pabba fyrir að leita ekki að túristainformasjóninni eða hann hana fyrir að skilja ekki að það eru hnitin á kortinu sem skipti máli ekki skrifstofa sem er breytingum háð.

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.