[ Valmynd ]

Að horfa á fjall, foss

Birt 15. júlí 2005

og blómabreiðu út um eldhúsgluggann og vaska upp úr vatni sem hitað hefur verið á olíufýringu er ólýsanlega gefandi.
Að koma á stað þar sem langa,langa,langa amma mín var dæmd til dauða vegna þess að hún átti barn með stjúpföður sínum var sterkt. Ég á dönskum kóngi, sem náðaði hana síðar, tilveru mína að hluta til að þakka.
Að ganga yfir heiði í rigningu og sól til skiptis og sigla fyrir ókleift fjall í ágjöf er á sama hátt ólýsanlegt.
Að ganga á fjall sem virðist vera að brotna í spað og standa í hífandi roki á tindinum og dást að útsýni til allra átta og fylgjast með tveimur filefldum karlmönnum basla við að brjóta saman landakort er skemmtilegt.
Selur á steini, ilmur af lyngi, refur í hlíð, ungar í hreiðri og pabbi að synda í sjónum gera þessa ferð fjölskyldunnar ógleymanlega.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.