[ Valmynd ]

ég vann afrek

Birt 3. ágúst 2005

um helgina en finnst auðvitað ekki nógu mikið til koma. Ég hugsa of mikið um alla þá sem vinna enn meiri afrek og í samanburði við þá bliknar mitt afrek. Ég vildi að ég gæti látið nægja að líta í eigin barm og gleðjast yfir persónulegum sigrum án alls samanburðar sem er mér í óhag. Fyrir þybbna, vöðvalitla, gigtveika, miðaldra konu er þriggja daga ganga með föt, mat , vindsæng og svefnpoka afrek, þrátt fyrir að einhverjir betur á sig komnir gangi lengri dagleiðir.
Það er mögnuð upplifun að tjalda í þoku inn milli fjalla og vera bara tvö í heiminum, taka niður tjald að morgni og setja á sig þungan bakpoka sem maður getur ekki einu sinni lyft án aðstoðar og arka af stað yfir næsta fjall. Að vera á gangi lungann úr deginum og tjalda við fallegan læk, elda á prímus og setjast saddur á lækjarbakka og hlusta á lækjarniðinn tæmir hugann. Maður verður hissa á því að geta komist af með það sem maður ræður við að bera í poka á bakinu. Mér varð oft hugsað til þeirra sem áður fyrr urðu að ganga allra sinna ferða, oft með byrðar, í misjöfnum veðrum og illa skóuð. Það hefur örugglega aldrei hvarflað að þeim að fólk færi að þvælast þetta sér til skemmtunar.

Breiðavík

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.