[ Valmynd ]

ég er búin að vinna

Birt 11. nóvember 2005

við það sama alla mína starfsævi. Mér hefur liðið vel í vinnunni, hún hefur ögrað mér og ég hef tekist á við nýja hluti með reglulegu millibili. Vinnan hefur gert þá kröfu til mín að hafa mikil samskipti við fólk, jafnvel stundum erfið samskipti. Þau samskipti hafa þroskað mig meira en margt annað og gert kröfu til mín um að bera virðingu fyrir fólki og læra að hlusta á sjónarmið þess.

Vinna hefur verið krefjandi en jafnframt gefandi. Þau verkefni sem upp hafa komið hef ég leyst af áhuga með það að leiðarljósi að hindranir séu oftar en ekki hugarfóstur þeirra sem standa frammi fyrir vandamálinu.

Núna eru hugsanir um að tímabært sé orðið að skipta um starfsvettvang farnar að leita frekar stíft á mig þrátt fyrir að ég sé mjög áhugasöm um það sem starfið snýst.

Ég held að ástæðan sé að ég upplifi að ég sé komin út á vissan enda í starfi mínu eða blindgötu öllu heldur. Tilhugsunin um að verða beiskur, miðaldra starfsmaður vekur mér löngun til að umpotta og byrja á einhverju fersku þar sem ég get haft áhrif og upplifað að mitt framlag leiði til einhvers.
Á þann eina hátt held ég að ég fái tilfinningu fyrir að ég hafi áhrif á hvaða stefnu líf mitt tekur.

Mig langar mikið til að vinna innan um kraftmikið og áhugasamt fólk sem upplifir að starf þess sé mikils metið og grípur þau tækifæri sem gefast til umbóta og áhrifa. Mér leiðist að vinna innan um neikvætt fólk sem sér bara skítinn á rúðunni og nýtur þess vegna ekki útsýnisins, svo ég tali nú ekki um þá sem spóla einn meiri drullu á rúðuna og byrgja þannig öðrum sýn.

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.