[ Valmynd ]

ég er búin að fatta

Birt 28. nóvember 2005

hvað það er sem hefur farið hvað mest í taugarnar á mér við umfjöllun fjölmiðla um jólin. En það er barlómurinn um hvað kröfurnar um að standa sig í að skreyta, baka,kaupa og föndra eru miklar. Þessi eilífa umræða um kröfurnar er að verða jafn sjálfsagður hlutur og það að kveikja á jólatrénu á Austurvelli eða fá sendan söfnunarbauk frá Hjálparstofnun kirkjunnar.

Á mig virkar þetta eins og það sé verið að gera þennan árstíma að einhverju vandamáli sem líkt og náttúruhamfarir sé ógerlegt fyrir mann að hafa áhrif á. Ég lít þannig á að það sé mitt mál hversu mikið eða lítið ég nýt jólanna og undirbúningsins fyrir þau. Ég vel hvað ég geri og er orðin þreytt á að sitja undir því að fólk kaupi,skreyti eða föndri of mikið vegna utanaðkomandi þrýstings. Það getur vel verið að einhverjir geri það en það er þá angi af miklu stærra vandamáli sem þeir eiga við að glíma og það þarf að taka á því. Ég lít þannig á að í desember eins og alla aðra mánuði ársins velji ég og hafni á hverjum degi, sem fullorðin manneskja verð ég að geta það.
Ég set upp það skraut sem mig langar til og fæ ekki samviskubit þó það fari í skítuga glugga. Ég er að þessu vegna þess að mér finnst gaman að því að brjóta hversdaginn upp. Ég valdi líka að búa til hefðir og minningar fyrir börnin mín. Fyrir mér eru jólin á hárréttum tíma og nýti mér því tækifærið til að hleypa birtu í sálina jafnt og út í skammdegið. Ég hefði ekkert með þau að gera í júlí og tæki ekki þátt í þeim ef þau væru á þeim árstíma.

Ég veit að jólin koma þó ég hafi ekki tíma til annars en skipta um föt og borða hangikjöt á aðfangadagskvöld. Ég hef val um láta þau fara fram hjá mér og leigja mér spólu á aðfangadag og borða popp og kók og mæta ekki í jólaboð á jóladag.

Ég held að þessi umræða um að við séum öll fórnarlömd einhverra utanaðkomandi krafna á aðventunni gefi okkur afsökun til að ganga lengra en við ráðum við.Umræðan auðveldar okkur að loka augunum fyrir því að við erum sjálf við stýrið og berum því höfuðábyrgðina á því hversu langt við göngum. Fólk sem velur að afsaka sig með því að einhver annar eigi sökina er ekki ábyrgt, líkist helst börnum sem segja “hann byrjaði” til að komast hjá að takast á við afleiðingar gjörða sinna.

Flokkun: Hitt og þetta.

Lokað fyrir ummæli.

3 ummæli

 1. Ummæli eftir rmg:

  Eins og talað út úr mínu hjarta.

  28. nóvember 2005 kl. 13.56
 2. Ummæli eftir ek:

  já, gott að vita að maður er ekki einn um að finnast þetta. Ég vildi að fólk færi að hysja upp um sig buxurnar og njóta á sinn hátt . Láta bara auglýsingar og aðra vitleysu fram hjá sér fara…

  28. nóvember 2005 kl. 15.07
 3. Ummæli eftir rmg:

  Já, núna er manni uppálagt að njóta aðventunnar og hætta öllu stressi í sambandi við þrif, bakstur og föndur. En þá koma allar auglýsingarnar um jólatónleika, bókakynningarnar, leiksýningarnar að ég tali nú ekki um jólahlaðborðin. Nú er pressan í þeim geiranum. Mig langar mest til að liggja heima í sófa við kertaljós með skemmtilega (ekkert endilega “góða”) bók. Vá, ég er farin að blogga meira á þinni síðu en minni!

  28. nóvember 2005 kl. 16.09