[ Valmynd ]

ég var að ljúka við

Birt 7. janúar 2007

að lesa danska skáldsögu sem heitir Undantekningin eftir Christian  Jungesen. Bókin heillaði mig algjörlega. Hún er spennandi, skemmtileg og áhugaverð. Persónur bókarinnar vinna flestar á stofnun í Danmörku sem fjallar um þá illsku sem einkennir manneskjuna þegar stríð geisa. Þær velta upp spurningum um hvernig það megi vera að illmenni geta farið heim til sín að kvöldi og sinnt fjöskyldu sinni með sama hætti og aðrir, þeir eru ekki alvondir, heldur sinna bara “störfum” sínum á daginn og fjölskyldunni á kvöldin. Hvernig má það vera að bræður, feður  og synir nauðga dætrum, systrum og eiginkonum óvina sinna  hvar sem ófriður er?  Um leið og þær eru að fjalla um þetta leggja þær samstarfskonu sína í einelti og nota svipaðar aðferðir og “illmennin”  við að réttlæta hegðun sína gagnvart henni, breyta henni í óvininn í sínum huga og  vinna út frá því sjónarmiði. Þeim finnst ekki að þær séu að gera neitt rangt, fórnarlambið  kalli þetta yfir sig með göllum sínum og geti því sjálfri sér um kennt.. Gallarnir sem þær sjá hjá henni eru samt allir meira og minna hugarburður þeirra.

Í bókinni eru skoðaðar rannsóknir sem sýna fram á  hvernig fórnarlömb gangast inn í hlutverk sitt og komast ekki út úr því og einnig að þeir sem fá tækifæri til að kúga og pynta nýta sér það á fullan hátt , jafnvel þó það snúist ekki um að bjarga eigin skinni.

Hugsanir sem þetta vekur hjá mér varða það hvort það geti verið að þegar maður heldur að maður sé góður sé maður kannski bara vondur?

Konurnar í bókinn upplifa sig ekki sem vondar þeim finnst þær vera að vinna nauðsynlegt verk þegar þær reyna að bola samstarfskonu sinni burt af vinnumarkaði. Þær gera sér ekki grein fyrir að í raun er það ótti þeirra við að hún taki frá þeim störf sem rekur þær áfram. Þær telja sig vera að vinna stofuninni í  hag. Smátt og smátt tekst þeim á lúmskan hátt að gera fórnarlambið vanvirkt og nánast ýta því út í taugaáfall með baknagi og útilokun sem þær viðurkenna samt aldrei að eigi sér stað.  Kannast aldrei við að neinn fótur sé fyrir ásökunum fórnarlambsins og láta  sem hún sé bara ímyndunarveik og ýta þannig undir það að hún sé geðveik á einhvern hátt.

Ég hef orðið vitni að sambærilegri hegðun og jafnvel tekið þátt í henni og alltaf  eru sömu rök notuð: “hún er bara svo…”  Rótin að þessari hegðun er líklega oftast ótti. Við gerum lítið úr öðrum til að verða merkilegri sjálf.

Eftir að hafa lesið þessa bók verð ég vonandi meðvitaðri um  það hvenær tilburðir til eineltis eiga sér stað. Ég veit að það er hægt að tala illa um alla og það er líka hægt að sleppa því. Ég ætla að sleppa því og reyna að vera meðvituð um hvenær mér finnst mér ógnað og  falla því ekki í þá gryfju að reyna að draga aðra niður svo þeir fari ekki upp fyrir mig. Er ekki pláss fyrir okkur öll?

Baknag og útilokun eru fólskuverk  hinna siðmenntuðu sem eru  réttlætt með sama hætti og “illmennin” sem nauðga, pynta og drepa óvini sína réttlæta sín fólskuverk.

Fólk sem er útilokað og úthrópað kvelst og líf þess er jafnvel  lagt í rúst ef ekki er gripið í taumana. Það er ekki auðvelt að horfast í augu við það en mikilvægt. Það er oft auðveldara að vera vondur en góður og fáir þora að rísa upp og benda á að hegðunin sé ekki í lagi af ótta við að útilokunin snúi þá að þeim sjálfum.

 

Flokkun: Óflokkað, Bækur.

Lokað fyrir ummæli.

2 ummæli

 1. Ummæli eftir Sigga:

  Já, þetta er í rauninni af sömu rót og það sem flestir þolendur eineltis segja að hafi haft mest áhrif á sig sem börn… að vera ekki boðið í afmæli. Útilokun er mun sárari en allt annað. Spennandi bók annars, lastu hana á dönsku? Já, og Gleðilegt ár!

  8. janúar 2007 kl. 11.35
 2. Ummæli eftir ek:

  gleðilegt ár sömuleiðis. Það er búið að þýða þessa bók svo ég las hana á íslensku.
  Hún er mögnuð, skal ég segja þér.
  ek

  8. janúar 2007 kl. 14.29