[ Valmynd ]

loksins datt það í hausinn á mér

Birt 13. september 2007

af hverju mér finnst símaauglýsingin nýja vera bæði frek og ágeng. Það hefur ekkert að gera með trúarbrögð  en það hefur eitthvað að gera með það að þarna er verið að nýta sér vel þekkt klassískt verk og það yfirtekið í þágu símafyrirtækis.
Auglýsingar takast vel þegar þær halda áfram að vinna eftir að hætt er að sýna þær.  Boðskapur sem nær að skapa hugrenningatengsl langt út fyrir sjálfa auglýsinguna situr eftir og kúnninn er minntur á vöruna við ólíklegustu aðstæður. Undirmeðvitund viðskiptavinanna vinnur þannig með auglýsandanum. Þetta sama gerist þegar vinsæl lög eru spiluð undir auglýsingum. Lagið mun þar eftir, allavega í einhvern tíma, minna mann á þann banka, tryggingarfélag eða klósetthreinsi sem notaði það í auglýsingu.
Einmitt þess vegna er svona miklum peningum varið í að gera símaauglýsinguna sem best úr garði því þannig skapar hún sterkari hugrenningatengsl við heilaga kvöldmáltíð Da Vincies. Og það er varla tilviljun að nærmynd er sýnd þegar brauð er brotið.Hver veit nema það ýti undir það að í kirkjum landsins hugsi fólk meðvitað eða ómeðvitað til  Símans þegar það gengur til altaris…

Fólk ber þetta saman við Monty Phyton kvikmyndina, Life of Brian og skilur ekki í húmorslausu fólki að sjá ekki hvað auglýsingin er fyndin. Vissulega er auglýsingin bæði fyndin og vel gerð, en að mínu mati er þetta ekki sambærilegt. Í Life of Brian var húmorinn það sem skipti máli, myndin var ekki að reyna að selja mér vöru heldur sýna mér  vel þekkta atburði í nýju ljósi. Í auglýsingum hins vegar er verið leynt og ljóst að koma skilaboðum á framfæri. Þau skilaboð verða að  hafa sem mest áhrif á neytendur í þágu vörunnar sem verið er að auglýsa, annars skilar auglýsingin ekki árangri. Auglýsingar eru aldrei gerðar til þess eins að skemmta fólki, þó þær geti verið skemmtilegar.
Mín krafa um að fá  að njóta klassíkur án þess að verða hugsað til misáhugaverðrar vöru í leiðinni er hjáróma og enginn telur sér skilt að verða við henni.  En það er merkilegt að verða vitni að því hvernig flestum sem tjá sig um þetta mál finnst í lagi að fyrirtæki nýti sér háklassískt listaverk  í sína þágu. Litla  manninum er fátt heilagt hann  afsalar sér stöðugt fleiri gildum og hlær manna hæst þegar í raun er verið að misnota hann…

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.