[ Valmynd ]

það eru komin

Birt 27. janúar 2008

páskaegg í Hagkaup og janúar ekki búinn. Mér brá verulega þegar ég gekk fram á þau. Augnablik hélt ég að ég væri ekki meðvituð um hvaða mánuður væri eiginlega. Páskar - vor á næsta leyti - nei varla það er enn hávetur. Meira að segja hundleiðinlegur vetur, a.m.k. veðurfarslega.

Hlustaði á Zizek í gær í troðfullum sal af fólki. Þurfti að sitja á gólfinu og var undir lokin farin að kvíða því hvort ég gæti staðið upp. Mér finnast pælingar hans skemmtilegar og áhugaverðar. Hitti a.m.k einn sem finnst hann bullari, ég get ekki dæmt um það en veit að auðvitað er hann ekki búinn að uppgötva sannleikann frekar en nokkur annar. Hann greinir og skoðar veröldina með sínum hætti og hefur skilið hluti út frá því sem hann upplifir og les. Hann ögrar og snýr viðteknum skoðunum á óvæntan hátt, sýnir fram á að margir fletir eru á málum. Mér finnst trúverðugt að náttúran sé bara ein stór kaos og það að einhverskonar harmonía ríki þar sé bábilja. Hins vegar finnst mér ekki alveg trúverðugt að náttúran fengi fráhvarfseinkenni ef snögglega væri hætt að menga. Skemmtileg hugmyndin um að endurvinnsluhugmyndir sé í raun kapítalískar hugmyndir um að eyða engu heldur nýta allt. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort hann hefur rétt fyrir sér með það að umhverfismálin séu/verði hin nýju trúarbrögð fólksins. Hann telur að það sé hættuleg braut því það ýti undir það að við tökum ekki þær hættur sem að jörðinni /okkur steðja alvarlega. Trúum í raun innst inni að við og hin mikla náttúra séum eitt og lifum í einhverskonar samræmi og munum því örugglega bjargast. Virðumst trúa því að við getum núllstillt náttúruna á ný og þá verði allt gott. Mér finnst eins og hann vilji helst að fólk vakni og geri sér grein fyrir því að það þarf að greina hlutina án þess að flækja trú eða einhverju yfirnáttúrulegu inn í þá greiningu. Horfast í augu við það að við erum á eigin vegum og berum ábyrgð á því hvert stefnir. Það þarf að leggja kalt mat á hlutina og gera það sem gera þarf. Ætli það sé framkvæmanlegt? Hver á að ákveða hverjir eiga að verða fyrir sem minnstu hnjaski og hverjir að missa spón úr aski sínum? Og hverjum á að treysta til þess? Ég sé það ekki alveg. Auðveldast leiðin er líklega að  bíða bara eftir að það sem gerist gerist og klóra lítilega í bakkann á meðan beðið er og leggja sitt af mörkum til að friðþægja sjálfan sig, t.d. með því að endurvinna það sem til tilfellur á heimilinu…

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.