fyrstu 20 ár ævi minnar
Birt 6. september 2008
dvaldi ég í skjóli þriggja kynslóða og næstu 30 ár þar á eftir voru kynslóðirnar fyrir framan mig tvær. Ég hef í hálfa öld getað stutt mig við þetta fólk og nærst á umhyggju þeirra og áhuga á mér og mínum.
Nú er ég komin næst fremst í röðina og fyrir aftan mig eru tvær kynslóðir sem skýla sér upp við mig. Því má segja að á vissan hátt eldist ég tölvuvert við það að afi minn deyr, tilfinning mín fyrir þeirri ábyrgð sem ég ber eykst í það minnsta. Kannski má líka líta þannig á að ég hafi hækkað í tign eins og afi sagði að ég hefði gert við hann í þrígang , með því að gera hann að afa, langafa og langalangafa í fyrsta sinn.
En ég finn sterkt fyrir því að varnarmúrinn er þynnri nú en áður. Arfleifð þeirra sem dánir eru situr þó enn í mér. Það veganesti mun áfram styrkja mig og mín ábyrgð felst í því að kynslóðirnar sem á eftir mér koma njóti þess einnig. Í hálfa öld hef ég haft fyriri augunum fyrirmynd, sem hélt stöðugt áfram að stúdera og pæla, vera áhugasamur um menn og málefni, og gefa öðrum af sér. Af því dreg ég þann lærdóm að það að pakka saman og smækka veröld sína með vana og lífsleiða á þeim forsendum að maður sé kominn á vissan aldur er ekki nauðsynlegt. Það er hægt að halda áfram að þroskast og takast á við ný verkefni á hvaða aldri sem er. Til að standa undir þeirr ábyrgð sem ég ber núna á því að bera áfram það veganesti sem ég hef fengið frá gengnum kynslóðum þarf ég að taka lífinu af hógværð og auðmýkt og muna að engu er lofað og ekkert er sjálfgefið. Viðhalda áhuga, forvitni og gleði gagnvart lífinu, umverfi og náttúru. Vera tilbúin að takast á við ögrandi verkefni. Sinna mínum nánustu og gefa þeim og öðrum af mér . Fíflast með reglulegu millibili og muna að þakka það sem mér hlotnast.
Ég mun gera mitt besta, vona að það dugi…
Flokkun: Óflokkað.