[ Valmynd ]

ætli sé hætt við að maður

Birt 15. október 2009

hafi ofmetnast þegar manni finnst amatörismi blasa við hvert sem litið er?  Frá mínum sjónarhól  virðist skorta grunn, sýn og festu í vinnubrögð allt of margra ábyrgra aðila í samfélaginu. Ákvarðanir einkennast af reddingum fyrir horn og  undanlátssemi við hagsmunahópa og tilraunum til að enduróma rödd þjóðarinnar. Sú rödd er  ein í dag og önnur á morgun svo þeir sem reyna að koma til móts við óskir hennar virðast eins og vinglar sem sveiflast frá einni skoðun til annarar.  Stjórnmálamenn sem reyna að standa í lappirnar fá yfir sig fúkyrðaflaum frá hagsmunahópum sem eru eins og illa uppaldir krakkar sem eru vanir að fá sínu framgengt ef þeir frekjast bara nógu mikið. Fjölmiðlar eltast við hvað sem til þeirra er hent líkt og  hundar með eltieðli sem  ráða ekki við sig og  hlaupa á eftir hvaða frisbí diski sem er. Mikið vildi ég að sem flestir stjórmálamenn litu á það sem hlutverk sitt að staldra við og íhuga hvað kemur þjóðinni best til lengri tíma litið.Það er nauðsynlegt að hafa í huga að framtíðin er lengri en næstu 2-4 árin . Skammtímagróði stangast oft á við langtímahagsmuni. Þjóð sem telur skjótan gróða einu leiðina til að lifa af og vill svo ekki axla ábyrgð á gerðum sínum á skilið vanhæfa stjórnmálamenn, þar hæfir kjaftur skel, því miður. Hrunið er afleiðing af hugsunarhætti þjóðarsálarinnar, þjóðin lét hluti viðgangast án gagnrýni, mærði valdhafa með því að kjósa þá aftur og aftur og fjölmiðlar settu auðkýfinga á stall með því að flytja nánast gagnrýnislausar fréttir af stöðugum sigrum þeirra og þjóðin lét sér vel líka. Þjóðin vill að auðmönnum verði refsað en verslar samt enn í Bónus og Hagkaup. Í skoðanakönnunum eru framsóknarmenn, gott bakland nokkurra fjárglæframanna, með aukið fylgi. Þeir stjórnmálamenn sem meirihluti þjóðarinnar hefur stutt til valda lengst af s.l. 20 ár endurspegla væntanlega þjóðarsálina og það er ekki fögur sjón sem þar blasir við.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.