[ Valmynd ]

mér finnst að forsetinn

Birt 5. janúar 2010

hefði átt að segja okkur hvaða ávinning hann telur að þjóðin hafi af því að fá tækifæri til að segja sína skoðun á Icesave-lögunum.
Á þeim tíma sem hann tók sér til umhugsunar hlýtur hann að hafa vegið og metið efnahagslegan ávinning þjóðarinnar af því að við tækjum okkur lengri tíma til að  ákveða hvernig við ætlum að takast á við þann vanda sem Icesave er.
Hann hlýtur að vera sannfærður um að þjóðarbúið og orðstír þjóðarinnar  geti með góðu móti  staðið undir töfum á afgreiðslu málsins.  Varla væri hann annars tilbúinn til að taka þessa miklu áhættu sem ég upplifi að hann sé að taka fyrir hönd landsins.  Ég verð að  trúa því að þjóðarhagur liggi að baki ákvörðun hans.
Mér finnst þessi ákvörðun skapa mikla óvissu og hún ýtir undir kvíða og vonleysistilfinningu mína um það að þjóðin hafi ekki manndóm í sér til að vinna sig út úr þeim vanda sem hún stendur frammi fyrir. Fyrsta skrefið  á þeirri leið hlýtur að vera að horfast í augu við stöðuna eins og hún er, afneitun  er til einskis gagns. Krafa um réttlæti til handa sumum  er ekki trúverðug eða líkleg til að afla okkur  stuðnings.
Mér nægir ekki að vita að forsetinn telji að þjóðaratkvæðagreiðsla geti leitt til sátta milli ólíkra sjónarmiða.  Ég óttast að lengra riflidi um Icesave ýti undir  sundrung hjá þjóðinni.  Ég óttast líka að með því að draga Icesave á langinn sé hætta á því að verið sé að drepa öðrum  stærri málum á dreif. Þjóðin verður upptekin  við að rífast um eitt mál á meðan önnur stór og brýn mál gleymast eða liggja óleyst um lengri eða skemmri tíma.
Þar fyrir utan finnst mér þeim tíma illa varið sem ég óttast að muni fara í það að rífast um formið á þjóðaratkvæðagreiðslunni, um það um hvað á að spyrja, og hverjum það sé að kenna að sú niðurstaða sem fæst verður að veruleika  og svo riflidið um það  hvað niðurstaðan þýði í raun!  
Skoðanir mínar litast af því að ég tilheyri ekki þeim hópi sem sagður er vera þjóðin.  Mér finnst barnalegt að halda að ef við vælum bara nógu mikið hljóti aðrar þjóðir að skilja okkar sjónarmið. Mér finnst  það bera vott um sérgæsku að finnast  sjálfsagt að íslenskir skattgreiðendur  borgi upp í topp innistæður Íslendinga í  einkavæddum bönkum en telja óréttlátt að borga 20% af innstæðum útlendinga í sömu bönkum með þeim rökum að bankinn hafi verið einkavæddur.  Að mínu mati er það lítilmannlegt að vilja bara fylgja leikreglum sem koma manni sjálfum til góða en vilja svo breyta þeim þegar þær eru öðrum í hag. 

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.