[ Valmynd ]

hugsum okkur fjölskyldu

Birt 15. apríl 2010

sem fær lánað hús í sumarfríinu sínu. Þetta er nokkuð samsett fjölskylda, mín börn, þín börn og okkar börn á ýmsum aldri ásamt foreldrunum. Húsið sem þau dvelja í er rúmgott á tveimur hæðum. Börnin fá neðri hæðina til umráða fyrir sig en mamman og pabbinn sofa á aðalhæðinni og biðja elsta barnið um að hafa umsjón með umgengni á neðri hæðinni. Á meðan á dvölinn stendur verða foreldrarnir varir við að mikil gleði ríkir á neðri hæðinni og eru mjög ánægðir með það hvað börnunum lyndir vel og skemmta sér vel  saman. Ef hávaðinn úr kjallaranum virðist of mikill kalla foreldrarnir á unglinginn til að spyja hvort ekki sé allt í lagi og hann fullyrðir að svo sé. Af því foreldrunum finnst mikilvægt að börnin þeirra viti að þeim sé treyst láta þau þessar reglulegu upplýsingar unglingsins nægja til að fullvissa sig um að allt sé í lagi. Einn daginn berst  ansi torkennileg lykt frá neðri hæðinni og enn er kallað á unglinginn og fleiri krakka með honum en þau fullvissa foreldrana um að allt sé í himnalagi. Og fjölskyldan fer á ströndina  þennan dag eins og marga aðra daga. Þegar þau koma þaðan er húsið sem þau fengu lánað brunnið til kaldra kola og við rannsókn kemur í ljós að það kviknaði í út frá tilraun sem hluti barna þeirra var að vera með terpentínu og rúmföt sem þau fundu í geymslu á neðri hæðinni. Þegar kom að því að borga fyrir tjónið sögðust foreldrarnir ekki hafa haft neitt með þetta að gera, unglingurinn þeirra átti að sjá um systkini sín og því væri það hann ásamt þeim sem bæri ábyrgðina. Hann hefði brugðist trausti þeirra og þetta hefði gerst þrátt fyrir að þau væru þarna en ekki þess vegna. Unglingurinn sagði að það hefi vantað reglur hann hefði ekki vitað hvað hann átti að gera  og haldið að allt væri leyfilegt. Börnin voru ekki viss um hver ætti sökina sumum fannst að eigendur hússins ættu að bera sökina fyrst þeir tóku áhættuna á að lána húsið en önnur héldu að það væru foreldrarnir eða unglingurinn sem væru sek og um þetta þráttaði fjölskyldan. Ekkert þeirra sýndi þó nokkurra iðrun vegna atburðarins. Þau leituðu öll sökudólga annarsstaðar og virtust ekki treysta sér til að horfast í augu við eigin gjörðir. Á endanum sat eigandi hússins uppi með allan kostnað af skemmdunum því fjölskyldan var ótryggð og ekki borgunarmaður fyrir þeim.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.