[ Valmynd ]

ég heyri á mörgum

Birt 9. október 2010

sem ég tala við að þeir telja fjölmiðla standa sig mjög illa, þá skorti dýpt og spóli bara í því sem þeir halda að sé vinsælt hverju sinni. Þannig líkist þeir tækifærissinuðum stjórnmálamönnum sem segja það sem þeir telja að fjöldinn vilji heyra.
Það sjónarhorn sem virðist unnið útfrá í fjölmiðlum er yfirleitt mjög þröngt. Fjölmiðlar blása oft upp afmörkuð mál og hamast við að flytja af þeim fréttir, frá sínum sjónarhól. Þeir sem reyna að benda á að það sé ekki eini sjónarhóllin sem hægt er að standa á þegar mál eru skoðuð fá yfirleitt litla sem enga athygli. Fréttamenn gera jafnvel lítið úr þeim með tilsvörum sínum og reyna að gera þá ótrúverðuga, ef ekki hreinlega tortryggilega.
Það hvarflar stundum að mér að það vanti vilja hjá fjölmiðlafólki til að reyna að skilja mál áður en þau eru blásin upp. Þegar  fjölmiðlafólki er bent á að þau standi sig ekki í hlutverki sínu bregst það yfirleitt við í bullandi vörn. Þau halda því yfirleitt fram að þau spegli eingöngu samfélagið. Það er eins og þau séu lokið inni í mjög þröngum heimi og hlusti á mjög afmarkaðan málflutning, þann málflutning dubba þau svo upp sem skoðun fjöldans.
Fjölmiðlafólk líkt og stjórnmálamenn horfist ekki í augun við eigin ábyrgð og vinnur samkvæmt þeirri hugmynd að það hafi ekki áhrif á skoðanamyndum fólks. Hvar annarsstaðar getur fólk með góðum hætti kynnt sér málefni líðandi stundar og myndað sér skoðun á þeim?
Hæft fjölmiðlafólk á að skoða fleiri en eina hlið á málum og ekki hamast við að draga bara fram þær hliðar sem það telur mest krassandi og  fólk geti nært hneykslan sína og/eða reiði með.
Fjölmiðlamenn leggja sig oft ótrúlega  fram við að  halda að okkur hugmyndum og málefnum sem þegar betur er að gáð  eiga sér mjög fáa fylgismenn. Önnur mál sem þeir blása upp eiga sér jafnvel litla sem enga stoð í raunveruleikanum. Gott dæmi um þannig mál er t.d. inntaka nemenda í framhaldsskóla s.l. vor og haust. Tilfinningaþrungin viðtöl voru tekin við fólk sem taldi að með nýjum reglum væri verið að leggja líf barna þeirra í rúst af því þau komust ekki í ákveðna skóla. Miðað við fréttaflutninginn mátti halda að nú hefði ráðuneytið lagt sig fram sem aldrei fyrr  að eyðileggja líf fjölda nemenda. Þegar tölur eru hins vegar skoðaðar komust alls ekki mikið færri nemendur núna í sinn fyrsta- eða annars vals skóla en undafarin ár. Fjölmiðlar blésu ástandið upp og töldu okkur hlustendum, áhorfendum og lesendum trú um að ástandið hefði aldrei verið alvarlegra sem reynist vera  bull. Þegar sú staðreynd lá fyrir hafa þeir ekki hamast jafn mikið við að koma því á framfæri, eða hvað?
Fjölmiðlar velja hvað fær rými hjá þeim og í því vali felst ábyrgð þeirra. Það val hefur áhrif á hvaða mynd þeir varpa upp af hverju málefni fyrir sig. Það val hefur því  mikil áhrif á þá mynd sem við fáum af þeim samfélögum sem þeir segjast einungis spegla. Mogginn velur að þegja um sumt og klifa á öðru, Spegillinn á RUV valdi að gefa aðila frá Hagsmunasamtökum heimilanna tækifæri til að fara í hlutverkaleik og flytja stefnuræðu forsætisráðherra skömmu áður en hin eiginlega stefnuræða var flutt. Það er ekki bara happening hvaða fréttir eru fluttar eða hvernig þær eru fluttar, fjölmiðlafólk velur meðvitað hvernig það ætlar að matreiða ofan í okkur fréttirnar. Fjölmiðlafólk hefur skoðanir og þær skína í gegnum fréttamat þeirra, það hlýtur að vera mikilvægt að fjölmiðlamenn viðurkenni það. Þessi blekkjandi hlutleysisgríma sem þeir fela sig á bak við dregur úr trúverðugleika þeirra.
Lélegir fjölmiðlar eru ekki síður hættulegir en lélegir stjórnmálamenn sem fjölmiðlafólk telur sig eiga að veita aðhald.  Þeir eru ekki, frekar en aðrar valdamiklar stofnanir í samfélaginun hafnir yfir gagnrýni og verða stunda mjög markvissa sjálfsrýni.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.