[ Valmynd ]

þegar ég las

Birt 30. mars 2011

frétt um álft sem hamaðist af öllum lífs og sálarkröftum á svölum, en náði  sér ekki á flug vegna þrengsla fann ég fyrir sterkri  samsömun með henni. Það var einhverskonar hugmyndaleg samsömun sem ég fann. Eftir lestur fréttarinnar velti ég vöngum yfir því að kannski stafi erfiðleikar mínir við að koma hugmyndum mínum á loft aðallega af of þröngri flugbraut. Álftinni var bjargað af utanaðkomandi en ég verð líklega sjálf að reyna að leggja stærri flugbraut fyrir upphafningu eigin hugmynda.

Það er  langt í frá nýtt að ég finni til samömunar með fuglum, það hefur t.d. lengi verið þannig þegar ég sé gæsir kjaga um að þá kvikni innra með mér  einhverskonar hreyfingarleg samsömun, lík þeirri sem vaknar  þegar ég er nálægt kúm. Ég finn svo aftur á móti til andlegrar samsömunar með æðarfugli, mér finnst ég þekkja ró þeirra svo vel.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.