[ Valmynd ]

strengdi þess heit

Birt 24. október 2011

í morgun að næstu 4 vikur myndi ég taka strætó, hjóla eða ganga til og frá vinnu. Tók strætó tímanlega í morgun og óttaðist mest að koma alltof snemma á fund niður í miðbæ. En þær áhyggjur reyndust óþarfar eins og flestar þær sem ég fæ. Á Kringlumýrabrautinni reyndist vagninn bilaður og ég ásamt öðrum farþegum  þurfti að skipta um vagn. Mér fannst eins og mér hefði orðið að ósk minni því þessi töf var mér kærkomin. Á  Hlemmi hugsaði ég þó enn um það hvort ég ætti kannski að fara þar úr vagninum og ganga niður Laugarveginn fyrst ég væri svona tímanlega á ferðinni. Ég treysti því þó ekki að ég myndi ná að mæta á réttum tíma á fundinn svo ég ákvað að keyra frekar með vagninum niður Hverfisgötu. Það var röng ákvörðun, vagninn fór ekki niður Hverfisgötuna heldur beygði inn Snorrabraut og hélt svo sem leið lá í vesturátt eftir gömlu Hringbrautinni. Mér leist ekki á blikuna og þegar sagt var “háskóli” í kallkerfi vagnsins ákvað ég að fara út frekar en að lenda alla leið út á Granda. Þetta var enn ein ranga ákvörðunin þennan morgun því vagninn keyrði svo niður Skothúsveginn og beygði inn Lækjargötu. Ég stóð kl. 8:53  við gönguljósin hjá Þjóðminjasafninu, átti að vera mætt á fund sem ég hafði áhyggjur af að mæta of snemma á eftir 7 mínútur. Ekkert annað var hægt að gera í stöðunni en að arka af stað framhjá Tjörninni og yfir Arnarhól. Mætti 5 mínútum of seint á fundinn, kófsveitt og eldrauð í framan.

Flokkun: Óflokkað.

Lokað fyrir ummæli.

Ein ummæli

  1. Ummæli eftir Björg:

    Er ekki til strætó app ?

    26. október 2011 kl. 23.14