[ Valmynd ]

tíminn flýgur

13. júlí 2019

fallegt sumar betra en vott.

Ummæli (0) - Óflokkað

okkur vantaði nýtt rúm

21. ágúst 2017

og tókst loks að kaupa það s.l. föstudag og fengum það afhent í dag. Síðasta rúm keyptum við á síðustu öld, þýðir að næst þegar við kaupum okkur rúm verðum við orðin 78 og 77 ára.

Ummæli (0) - Hitt og þetta

að reita arfa

29. júní 2017

er ekki leiðinlegt. Ég tek samt eftir því að ég vil helst sitja sem lengst á sama stað og reita mjög vel í kringum mig. Uppgötvaði í fyrradag, þegar ég sat í sömu sporum á malarstíg í garðinum og tíndi upp hvert einasta smá rusl sem ég sá að það stafaði ekki af snyrtimennsku minni, heldur kveið ég fyrir að þurfa að mjaka mér áfram eða standa upp. Liðverkir mínir gera það að verkum að ég vil helst hreyfa mig sem minnst. Gott að mér er ekki illa við arfa, vil samt ekki leyfa honum að taka alveg yfir svo ég held honum í skefjum með því að taka smá svæði fyrir í einu. 30 mín á dag, þegar hangir þurrt duga mjög vel enn sem komið er alla vega.

Ummæli (0) - Hitt og þetta

himnarnir gráta

20. júní 2017

minn fyrsta sumarfrísdag. Ég átti að fara í fótsnyrtingu en hringt var í mig og henni frestað um viku. Við Kátur lögðum okkur eftir morgunmatinn og svo hefur orkan aðallega farið í að hugsa um hvað ég á að hafa í matinn í kvöld handa gestunum fjórum.
Ég er hætt í vinnu minni til ellefu ára en fór nú samt í póstinn í morgun og svaraðu tveimur erindum, ég mun ekki skila vinnutölvunni fyrr en síðar svo ég held áfram að sinna smáerindum. Öllu breytingum fylgir ákveðinn tregi jafnhliða spenningi. Ég hef sumarfríið til að anda, hlaða batteríin og skipta um gír.
Helsta stressið núna er svo það að ég er að drukkna í rabbabara…

Rabbabarinn

Ummæli (0) - Hitt og þetta

í hvert sinn

12. júní 2017

sem ég keyri inn á nýlagt malbik fer um mig sæluhrollur. Ég hægi á bílnum til að njóta þessa stutta kafla sem lengst. Blóðþrýstingurinn lækkar, hver fruma slaknar og taugakerfið róast. Þegar gamla malbikið tekur við fer allt í sama horfið.

Ummæli (0) - Hitt og þetta

það hefur stytt upp

2. júní 2017

en allt er skínandi hreint eftir rigningu næturinnar. Illgresið hefur tekið vaxtarkipp og það er að verða aðkallandi að fara á fjóra fætur og uppræta það. Samkvæmt veðurspá helgarinnar á að hanga þurrt svo tóm ætti að vera til að reita smá. Mig langar samt líka til að hanga bara um helgina eins og mér lætur best.

Ummæli (0) - Óflokkað

hér er allt með kyrrum kjörum

1. júní 2017

ekkert gerst síðan 2011, ekki hér í það minnsta, en það er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst.

Ummæli (0) - Óflokkað

tíminn flýgur

2. nóvember 2011

án þess að ég taki eftir því. 1/4 strax liðinn af strætóáskorun og þetta er næstum því of auðvelt. Reyndar eru brekkurnar sem ég geng til og frá strætóstoppistöðvunum  nokkuð brattar og mér verður því ansi ómótt að ganga þær. Bæði vegna hita og sökum mæði. Sem betur fer er ég nánast ein á gangstéttunum  þannig að mæði mín er ekki öðrum en mér til ama.

Ummæli (0) - Óflokkað

strengdi þess heit

24. október 2011

í morgun að næstu 4 vikur myndi ég taka strætó, hjóla eða ganga til og frá vinnu. Tók strætó tímanlega í morgun og óttaðist mest að koma alltof snemma á fund niður í miðbæ. En þær áhyggjur reyndust óþarfar eins og flestar þær sem ég fæ. Á Kringlumýrabrautinni reyndist vagninn bilaður og ég ásamt öðrum farþegum  þurfti að skipta um vagn. Mér fannst eins og mér hefði orðið að ósk minni því þessi töf var mér kærkomin. Á  Hlemmi hugsaði ég þó enn um það hvort ég ætti kannski að fara þar úr vagninum og ganga niður Laugarveginn fyrst ég væri svona tímanlega á ferðinni. Ég treysti því þó ekki að ég myndi ná að mæta á réttum tíma á fundinn svo ég ákvað að keyra frekar með vagninum niður Hverfisgötu. Það var röng ákvörðun, vagninn fór ekki niður Hverfisgötuna heldur beygði inn Snorrabraut og hélt svo sem leið lá í vesturátt eftir gömlu Hringbrautinni. Mér leist ekki á blikuna og þegar sagt var “háskóli” í kallkerfi vagnsins ákvað ég að fara út frekar en að lenda alla leið út á Granda. Þetta var enn ein ranga ákvörðunin þennan morgun því vagninn keyrði svo niður Skothúsveginn og beygði inn Lækjargötu. Ég stóð kl. 8:53  við gönguljósin hjá Þjóðminjasafninu, átti að vera mætt á fund sem ég hafði áhyggjur af að mæta of snemma á eftir 7 mínútur. Ekkert annað var hægt að gera í stöðunni en að arka af stað framhjá Tjörninni og yfir Arnarhól. Mætti 5 mínútum of seint á fundinn, kófsveitt og eldrauð í framan.

Ummæli (1) - Óflokkað

ég er í sumarfríi

28. júlí 2011

og verð í viku í viðbót. Svo hefst rútínan á ný. Mér lætur vel að gera ekkert, húka heima og bardúsa pínulítið hér og pínulítið þar og leggja mig á milli. Verst hvað tíminn líður samt hratt og fríið endar fljótt.

Ummæli (0) - Óflokkað