[ Valmynd ]

hér er allt með kyrrum kjörum

1. júní 2017

ekkert gerst síðan 2011, ekki hér í það minnsta, en það er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst.

Ummæli (0) - Óflokkað

tíminn flýgur

2. nóvember 2011

án þess að ég taki eftir því. 1/4 strax liðinn af strætóáskorun og þetta er næstum því of auðvelt. Reyndar eru brekkurnar sem ég geng til og frá strætóstoppistöðvunum  nokkuð brattar og mér verður því ansi ómótt að ganga þær. Bæði vegna hita og sökum mæði. Sem betur fer er ég nánast ein á gangstéttunum  þannig að mæði mín er ekki öðrum en mér til ama.

Ummæli (0) - Óflokkað

strengdi þess heit

24. október 2011

í morgun að næstu 4 vikur myndi ég taka strætó, hjóla eða ganga til og frá vinnu. Tók strætó tímanlega í morgun og óttaðist mest að koma alltof snemma á fund niður í miðbæ. En þær áhyggjur reyndust óþarfar eins og flestar þær sem ég fæ. Á Kringlumýrabrautinni reyndist vagninn bilaður og ég ásamt öðrum farþegum  þurfti að skipta um vagn. Mér fannst eins og mér hefði orðið að ósk minni því þessi töf var mér kærkomin. Á  Hlemmi hugsaði ég þó enn um það hvort ég ætti kannski að fara þar úr vagninum og ganga niður Laugarveginn fyrst ég væri svona tímanlega á ferðinni. Ég treysti því þó ekki að ég myndi ná að mæta á réttum tíma á fundinn svo ég ákvað að keyra frekar með vagninum niður Hverfisgötu. Það var röng ákvörðun, vagninn fór ekki niður Hverfisgötuna heldur beygði inn Snorrabraut og hélt svo sem leið lá í vesturátt eftir gömlu Hringbrautinni. Mér leist ekki á blikuna og þegar sagt var “háskóli” í kallkerfi vagnsins ákvað ég að fara út frekar en að lenda alla leið út á Granda. Þetta var enn ein ranga ákvörðunin þennan morgun því vagninn keyrði svo niður Skothúsveginn og beygði inn Lækjargötu. Ég stóð kl. 8:53  við gönguljósin hjá Þjóðminjasafninu, átti að vera mætt á fund sem ég hafði áhyggjur af að mæta of snemma á eftir 7 mínútur. Ekkert annað var hægt að gera í stöðunni en að arka af stað framhjá Tjörninni og yfir Arnarhól. Mætti 5 mínútum of seint á fundinn, kófsveitt og eldrauð í framan.

Ummæli (1) - Óflokkað

ég er í sumarfríi

28. júlí 2011

og verð í viku í viðbót. Svo hefst rútínan á ný. Mér lætur vel að gera ekkert, húka heima og bardúsa pínulítið hér og pínulítið þar og leggja mig á milli. Verst hvað tíminn líður samt hratt og fríið endar fljótt.

Ummæli (0) - Óflokkað

held að fjölin

7. júní 2011

mín sé gróf, mikið notuð með afmáðri málningu. Leitin að henni hefur enn ekki skilað árangri.

Ummæli (0) - Óflokkað

örn og amma

27. maí 2011

amma við afa: farðu varlega með þetta elskan mín

Örn: af hverju segirðu elskan mín við hann?

amma: afi er elskan mín

Örn: af hverju

amma: hann er kærastinn minn

Örn: nú, eruð þið ekki búin að giftast?

Ummæli (0) - Óflokkað

mér lætur vel að stinga

19. maí 2011

höfðinu í sandinn eins og strútnum. Eftir rétt rúma viku þarf ég að vera búin að semja erindi til að flytja í York á Englandi. Ég er komin áleiðis með að semja erindið en s.l. daga hef ég látið eins og þetta ferðalag sé hreinlega ekki á dagskrá og ég þurfi ekkert að ljúka við að semja neitt. Lifi bara lífinu eins og enginn sé morgundagurinn…

Ummæli (0) - Óflokkað

samtal ömmu og Arnar fjögurra ára

7. maí 2011

Örn: hver saumaði þetta?

Amma: langa, lang amma þín.

Örn: Hvaða langa, lang amma?

Amma: Magnea.

Örn: var hún kona Sigurbjörns?

Það sem barnið veit…

Ummæli (0) - Óflokkað

ég hef uppgötvað

27. apríl 2011

þau gömlu sannindi að þegar maður heyrir hvorki né les fréttir verður veröldin einfaldari og meira gefandi.

Ummæli (0) - Óflokkað

þegar ég las

30. mars 2011

frétt um álft sem hamaðist af öllum lífs og sálarkröftum á svölum, en náði  sér ekki á flug vegna þrengsla fann ég fyrir sterkri  samsömun með henni. Það var einhverskonar hugmyndaleg samsömun sem ég fann. Eftir lestur fréttarinnar velti ég vöngum yfir því að kannski stafi erfiðleikar mínir við að koma hugmyndum mínum á loft aðallega af of þröngri flugbraut. Álftinni var bjargað af utanaðkomandi en ég verð líklega sjálf að reyna að leggja stærri flugbraut fyrir upphafningu eigin hugmynda.

Það er  langt í frá nýtt að ég finni til samömunar með fuglum, það hefur t.d. lengi verið þannig þegar ég sé gæsir kjaga um að þá kvikni innra með mér  einhverskonar hreyfingarleg samsömun, lík þeirri sem vaknar  þegar ég er nálægt kúm. Ég finn svo aftur á móti til andlegrar samsömunar með æðarfugli, mér finnst ég þekkja ró þeirra svo vel.

Ummæli (0) - Óflokkað