[ Valmynd ]

held að fjölin

7. júní 2011

mín sé gróf, mikið notuð með afmáðri málningu. Leitin að henni hefur enn ekki skilað árangri.

Ummæli (0) - Óflokkað

örn og amma

27. maí 2011

amma við afa: farðu varlega með þetta elskan mín

Örn: af hverju segirðu elskan mín við hann?

amma: afi er elskan mín

Örn: af hverju

amma: hann er kærastinn minn

Örn: nú, eruð þið ekki búin að giftast?

Ummæli (0) - Óflokkað

mér lætur vel að stinga

19. maí 2011

höfðinu í sandinn eins og strútnum. Eftir rétt rúma viku þarf ég að vera búin að semja erindi til að flytja í York á Englandi. Ég er komin áleiðis með að semja erindið en s.l. daga hef ég látið eins og þetta ferðalag sé hreinlega ekki á dagskrá og ég þurfi ekkert að ljúka við að semja neitt. Lifi bara lífinu eins og enginn sé morgundagurinn…

Ummæli (0) - Óflokkað

samtal ömmu og Arnar fjögurra ára

7. maí 2011

Örn: hver saumaði þetta?

Amma: langa, lang amma þín.

Örn: Hvaða langa, lang amma?

Amma: Magnea.

Örn: var hún kona Sigurbjörns?

Það sem barnið veit…

Ummæli (0) - Óflokkað

ég hef uppgötvað

27. apríl 2011

þau gömlu sannindi að þegar maður heyrir hvorki né les fréttir verður veröldin einfaldari og meira gefandi.

Ummæli (0) - Óflokkað

þegar ég las

30. mars 2011

frétt um álft sem hamaðist af öllum lífs og sálarkröftum á svölum, en náði  sér ekki á flug vegna þrengsla fann ég fyrir sterkri  samsömun með henni. Það var einhverskonar hugmyndaleg samsömun sem ég fann. Eftir lestur fréttarinnar velti ég vöngum yfir því að kannski stafi erfiðleikar mínir við að koma hugmyndum mínum á loft aðallega af of þröngri flugbraut. Álftinni var bjargað af utanaðkomandi en ég verð líklega sjálf að reyna að leggja stærri flugbraut fyrir upphafningu eigin hugmynda.

Það er  langt í frá nýtt að ég finni til samömunar með fuglum, það hefur t.d. lengi verið þannig þegar ég sé gæsir kjaga um að þá kvikni innra með mér  einhverskonar hreyfingarleg samsömun, lík þeirri sem vaknar  þegar ég er nálægt kúm. Ég finn svo aftur á móti til andlegrar samsömunar með æðarfugli, mér finnst ég þekkja ró þeirra svo vel.

Ummæli (0) - Óflokkað

tvo daga í röð

17. mars 2011

hef ég brotið reglur húsfélagsins og gefið einmana þresti að borða á svölunum hjá mér. Og er með samviskubit yfir því. Þegar ég sé svo að fuglskömminn ætlar að sitja einn að kræsingunum og hrekur aðra fugla á brott af hörku hneykslast ég á honum, vorkenni þeim brottreknu og er skapi næst að hlýða húsreglunum hér eftir og gefa honum ekki framar. Tilfinningasemi mín og óstabílitet ríður því ekki við einteyming…

Ummæli (0) - Óflokkað

Þó birti stöðugt

21. febrúar 2011

dugir það mér ekki til bjartsýni. Ég óttast þá framvindu sem farin er af stað. Agenda ýmissa afla hræðir mig og ég er ekki viss um að okkur takist að ná farsælli lendingu sem þjóð. En hver veit kannski erum við skynsöm upp til hópa og tekst að láta ekki ringlurreiðaröflin rugla í tilfinningum okkar.

Ummæli (0) - Óflokkað

vorið var borið inn

23. janúar 2011

tulipanar.jpgtil mín í gær með tveimur
stórum túlípanavöndum.

Þreytandi að geta ekki stækkað myndir lengur. Eitthvað klúður í sniðinu, einhver default stilling einhversstaðar og ég finn hana ekki .

Ummæli (0) - Óflokkað

það fækkaði um eina

17. janúar 2011

í saumaklúbbnum mínum í síðustu viku. Við hinar höfum stutt hver aðra og  kvatt okkar kæru vinkonu  á okkar hátt. Við höfum t.d. “hlegið”  hana sem er andstaðan við að syrgja. Auðvitað syrgjum við hana en það að hlægja og fíflast yfir jafn alvarlegum hlut og dauðanum veitir losun.  Það er ekki óumbreytanleg regla að þurfa að taka dauðann hátíðlega, hann er bara ein af staðreyndum lífsins. Óvæginn á stundum en veitir okkur líka merkilega sýn á lífið sem hefur óþægilega sterka tilhneigingu til að halda áfram.

Ummæli (0) - Óflokkað